Í fréttum Ríkissjónvarpsins á laugardagskvöld var sagt frá nýjum stjörnusjónauka sem m.a. yrði nýttur til þess að „mappa Mjólkurveginn“ eins og sagði í skjáþýðingu. Í fljótu bragði lítur þetta út fyrir að vera hrá yfirfærsla úr enska frumtextanum, „mapping the Milky Way“ – og sjálfsagt er sú raunin. Það sem heitir the Milky Way á ensku hefur lengi heitið Vetrarbrautin á íslensku, a.m.k. síðan snemma á átjándu öld – „via lactea“ í íslensk-latnesku orðabókinni Nucleus Latinitatis eftir Jón Árnason biskup frá 1738 er skýrt ‘vetrarbraut’. Latneska orðið via merkir ‘vegur’ og lacteus ‘(mjólkur)hvítur’ þannig að mjólkurvegur er bein þýðing á því. en Via lactea er ættað frá γαλαξίας κύκλος (galaxías kýklos) í grísku, sem merkir ‘mjólkurhringur’.
Orðið mjólkhringur kemur reyndar fyrir í fornu máli, í Alfræði íslenzkri frá fimmtándu öld. Þar segir m.a.: „þær eru eigi áfastar himni og sýnast í mjólkhring til norðurs.“ Í greininni „Heimur og geimur. Þættir úr alþýðlegri stjörnufræði“ eftir Þorvald Thoroddsen í Ársriti Hins íslenska fræðafjelags í Kaupmannahöfn 1917 segir: „Þetta belti köllum vjer vetrarbraut […]; líklega er nafnið dregið af því, að hún sjest bezt í frostheiðu veðri á vetrum. Í öðrum löndum hefur vetrarbrautin tekið nafn af hinu hvítleita skini og er kölluð mjólkurvegur og mjólkurhringur á norrænu til forna.“ Í Norðanfara 1883 segir: „Vetrarbrautin hefir og verið kölluð mjólkhringur á Íslenzku.“ Hins vegar hef ég ekki fundið fornmálsdæmi um mjólkurveg.
Einu dæmin sem ég finn um það orð eru í vísunum til þess að það sé notað í öðrum málum. Elsta dæmið er í Norðra 1853: „Vetrarbrautin eður mjólkurvegurinn, er Danir kalla.“ Á mbl.is 2012 segir: „Stjörnufræðingar telja sig hafa fundið út að „Milky Way“ eins og vetrarbrautin okkar er nefnd á enska tungu, þ.e. mjólkurvegurinn, sé réttnefni.“ Í örsögunni „Maðurinn sem hætti að smakka það“ eftir Elísabetu Jökulsdóttur segir: „hann lýsti því í stórum boga hvernig vetrarbrautin er einsog rennandi mjólk sem hellt er úr könnu þannig að mjólkin streymir um heiminn enda er mjólkurvegur réttara orð.“ En þótt mjólk(ur)hringur og mjólkurvegur séu vissulega íslenska er engin hefð fyrir þeim og rétt að halda sig við Vetrarbrautina.
Ég sé að Jónas Hallgrímsson þýddi mælkevejen með vetrarbrautin í Stjörnufræði Ursins. Hef tilhneigingu til að fara eftir hans nýyrðasmíð.